ITRA stig - það sem þú þarft að vita

14. október 2022

ITRA það sem þú þarft að vita

Fyrir Laugavegshlaupið 2023 þá verða allir hlauparar að hafa að lágmarki 370 ITRA stig (Performance Index) til að komast í hlaupið. 200 stigahæstu hlauparar fá öruggan aðgang í hlaupið og verður sætunum skipt jafnt eftir kynjum. Aðrir hlauparar fara í pott þar sem verður dregið úr skráningum, þann 17. nóvember verður tilkynnt hverjir fá miða. Frekari upplýsingar um aðrar dagsetningar má finna hér.

PERFORMANCE INDEX

Performance Index er talan sem birtist efst uppi á heimasvæði hlauparans í svörtu boxi.  Þessi tala er meðaltal af fimm bestu hlaupum viðkomandi á síðustu þremur árum, 2020, 2021 og 2022. Þetta er sú tala sem hlauparar þurfa að hafa í huga þegar kemur að skráningu í Laugavegshlaupið. Fyrir skráningu í hlaupið 2023 verður skylda fyrir alla hlaupara að hafa amk 370 stig = Performance Index 370+. Til fróðleiks og glöggvunar má geta þess að hlaupari sem klárar Laugavegshlaupið á um 9 klst og 30 mínútum fær um 370 ITRA stig.  Fjölmörg hlaup á Íslandi eru skráð hjá ITRA og árangur í þeim telur að sjálfsögðu í svo kölluðum Performance Index.  Við hvetjum hlaupara enn og aftur til að skoða sitt heimasvæði hjá ITRA og sjá til þess að þar sé allt rétt skráð.

ITRA AÐGANGUR HLAUPARA

Það kostar árlega 8 EUR að vera meðlimur í ITRA sem eru alþjóðleg samtök utanvegahlaupara og ráðgefandi aðili World Athletics varðandi utanvegahlaup.  Við hvetjum hlaupara til að gerast meðlimir hjá ITRA til að fylgjast með sínu ITRA heimasvæði og árangri.  Hægt er að skrá sig á heimasíðu ITRA itra.run.

Það er á ábyrgð hlaupahaldara að skila inn úrslitum til ITRA sem birtast svo í framhaldinu á heimasvæði viðkomandi hlaupara.  Á heimasvæðinu geta hlauparar séð árangurinn, stigin og tölfræðina úr hlaupunum.  Það er mikilvægt að hlauparar kanni til hlýtar hvort að þeir séu nokkuð með tvö eða fleiri heimasvæði hjá ITRA.  Þetta getur gerst þegar hlauparar skrá sig með mismunandi hætti í hlaup t.d nota stundum millinafn við skráningu og stundum ekki.  Hægt er að sameina heimasvæði og eru leiðbeiningar þess efnis á heimasíðu ITRA og hér að neðan.

Athugið að í gagnagrunni ITRA eru ca 6000 íslenskir hlauparar, en yfir 5000 þeirra eru með 370 ITRA stig eða meira, sjá má meðfylgjandi mynd.

HVERNIG Á AÐ SAMEINA REIKNINGA

Stundum getur einn og sami hlaupari verið með fleiri en einn prófíl og þá þarf að sameina reikningana.

  1. Loggaðu þig inn eða búðu þér til ITRA aðgang
  2. Farðu á Find a runner eða My account
  3. Ýttu á "Manage my results" (þarf að vera skráð inn)
  4. Finnur upplýsingarnar þínar og ýtir þá á "Link selected results to my profile"

Leitaðu að nafninu þínu, stundum hefur það verið skráð inn með millinafni og stundum ekki, getur einnig prófað að leita eftir þjóðerni og afmælisdegi.

Sjá frekari leiðbeiningar hér.

ITRA Hlaup á Íslandi

Íslensku hlaupin sem gáfu ITRA stig árið 2022 eru Eldslóðin, Tindahlaupið, Fimmvörðuháls, Trékyllisheiðin, Austur Ultra, Pósthlaupið, Súlur Vertical, Laugavegurinn, Dyrfjallahlaupið, Þorvaldsdalsskokkið, Hólmsheiðarhlaupið, Esja Ultra, Hvítasunnuhlaup Hauka, Hengill Ultra og Mýrdalshlaupið.

Ef þig langar til að taka þátt í Laugavegshlaupinu en hefur engin ITRA stig núna þá hvetjum við þig til að byrja að safna stigum og taka þátt í skráningu í Laugavegshlaupið 2024. Það er fullt í boði!

Samstarfsaðilar

  • Reykjavik Excursions
  • 66 Norður
  • Suzuki
  • Volcano Huts
  • Ferðafélag Íslands
  • ITRA member
  • Gatorade