Farangur

Farangur 1 - Bláfjallakvísl
(Skilinn eftir við afhendingu gagna fimmtudag og föstudag)

Þátttakendur geta skilið eftir tösku við afhendingu gagna. Þessum farangri verður komið fyrir á syðri árbakka Bláfjallakvíslar. Í töskunni geta t.d. verið skór, fatnaður og orka. Alls ekki gler eða gosdósir. Þau sem eru að hugsa um að skipta um föt og skó á miðri leið ættu að nýta sér þennan möguleika.

ATH: ÞESSAR TÖSKUR VERÐA FLUTTAR BEINT TIL REYKJAVÍKUR AÐ HLAUPI LOKNU OG FARA EKKI Í ÞÓRSMÖRK. Þyngd að hámarki 3 kg og stærð ca 20 cm x 35cm. Ekki er borin ábyrgð á farangrinum og ættu því engin verðmæti að vera í innihaldi hans. Ekki sími, vegabréf, peningar eða bíllyklar.

Til að þessi flutningur sé mögulegur fyrir þátttakendur þurfa allir að taka tillit til þunga og umfangs. Hámarks þyngd hverrar tösku er 3 kg og umfang ca. 20x35 cm. Farangur verður vigtaður við móttöku hans við afhendingu gagna.

Taskan kemur til með að standa úti og getur blotnað vegna veðurs á staðnum og/eða í flutningi. Til þess að eiga ekki á hættu að fá afhentan blautan farangur er betra að töskur séu vatnsheldar eða innihaldi pakkað í plastpoka. Ekki er þó tekið við plastpokum sem farangri. Ekki er borin ábyrgð á farangrinum og ættu því engin verðmæti að vera í innihaldi hans.

Að hlaupinu loknu verða töskurnar fluttar til Reykjavíkur og eru þátttakendur vinsamlegast beðnir að sækja þær í Skautahöllina í Laugardal á laugardagskvöld um leið og rútur koma úr Húsadal eða á sunnudagsmorgun (daginn eftir hlaup) frá kl. 12-14. Mánudaginn (tveimur dögum eftir hlaup) kl. 9-16 verður einnig hægt að sækja töskur og er það síðasti frestur til að sækja farangurinn. Ósóttum farangri verður hent eftir þann tíma.

Merkja þarf töskuna með farangursmiða eins og sést hér fyrir neðan sem þátttakendur fá við afhendingu gagna. Sjá nánar hér.

Farangursmiði

Farangur 2 - Það sem þarf með í hlaupið

Meðalhiti í júlí á Laugaveginum er um 7-8°C. Gera má ráð fyrir að brugðið geti til beggja vona með hitastig og veðurskilyrði. Af fenginni reynslu af veðri í Laugavegshlaupi er mikilvægt að vera vel búinn og fara eftir fyrirmælum hlaupstjóra varðandi klæðnað. Á 55 km leið í kulda og bleytu getur kæling orðið lífshættuleg.

Fatnaður fer eftir því hvernig viðrar þegar hlaupið fer fram. Allir þátttakendur þurfa að vera viðbúnir því við upphaf hlaups að klæðast eða taka með sér auka fatnað í hlaupið, verði þess krafist af hlaupstjóra. Hér er um að ræða síðerma peysu, vindjakka, síðar buxur, vettlinga, húfu sem nær yfir eyru og skjól fyrir háls.

Æskilegt er að hlaupaskór séu með grófum sóla og búið að hlaupa þá til þannig að ekki verði hætta á blöðrum. Vatnsvarðir skór eru taldir góðir en athugið þó að sumir þeirra halda vatni frekari inni í skónum en úti. Lágar legghlífar eru góðar til að hindra að snjór og möl komist ofan í skóna (sjá dæmi um slíka hlíf hér).

Nánari upplýsingar um útbúnað hlaupara má finna hér.

Farangur 3 - Eftir hlaup

Farangur sem þátttakendur vilja eiga aðgang að að loknu hlaupi í Þórsmörk er tekinn með í rútuna í Landmannalaugar frá Reykjavík kl. 04:30 á hlaupdag.
Í Landmannalaugum þarf hver og einn að setja farangur sinn í rútu sem ekur í Þórsmörk. Mikilvægt er að hafa meðferðis hlý og þurr föt, inniskó eða töfflur og stórt handklæði. Athugið að ganga þarf frá búningstjaldi að sturtuaðstöðunni sem er utandyra. Farangur úr Landmannalaugum verður geymdur í tjöldum á marksvæði í Húsadal. Hlauparar eru beðnir að stilla farangri í hóf og merkja hann vel en engin ábyrgð er tekin á verðmætum í farangri.

Óskað er eftir því að töskur sem hlauparar vilja hafa aðgang að í Þórsmörk séu merktar með farangursmiða eins og sést hér fyrir neðan og þeir fá afhendan með hlaupanúmerinu sínu við afhendingu gagna.

Farangursmiði

Að hlaupinu loknu verður bæði farangur 1 og annað sem skilið er eftir í Landmannalaugum eða Þórsmörk flutt til Reykjavíkur og eru þátttakendur vinsamlegast beðnir að sækja sitt dót í Skautahöllina í Laugardal á laugardagskvöld um leið og rútur koma úr Húsadal eða á sunnudagsmorgun (daginn eftir hlaup) frá kl. 12-14. Mánudaginn (tveimur dögum eftir hlaup) kl. 9-16 verður einnig hægt að sækja töskur í Skautahöllina í Laugardal og er það síðasti frestur til að sækja farangurinn. Ósóttum farangri verður hent eftir þann tíma þar sem framkvæmdaaðilar hlaupsins hafa ekki aðstöðu til að geyma hann lengur.

Farangur raðaður upp við Bláfjallahvísl

Töskurnar við Bláfjallahvísl eru flokkaðar eftir ráshópum og númerum. Þær þurfa að vera vatnsheldar því þær standa úti og geta blotnað vegna veðurs á staðnum og/eða í flutningi.

Hlaupari að skipta um skó

Sumir velja að skipta um skó eða annan fatnað við Bláfjallahvísl. Athugið að þar er engin önnur aðstaða en guðsgræn náttúran.

Samstarfsaðilar

  • Reykjavik Excursions
  • 66 Norður
  • Suzuki
  • Volcano Huts
  • Ferðafélag Íslands
  • ITRA member
  • Gatorade