Ráshópar & hlaupanúmer

Það er mikilvægt að allir þátttakendur leggi sitt af mörkum til að þessi öryggistalning verði rétt og gefi sig fram í upphafi hlaups í viðeigandi ráshóp og fari síðan í gegnum þar til gert „talningarhlið“ í Álftavatni og Emstrum.

Þátttakendum í Laugavegshlaupinu er raðað í ráshópa eftir áætluðum lokatíma þeirra. Þátttakendur fá mismunandi lit á hlaupanúmerum, sem gefur til kynna í hvaða ráshóp viðkomandi er.

Hóparnir eru fjórir: gulur, rauður, grænn og blár. Fimm mínútur verða á milli ráshópa. Þetta er gert vegna þrengsla í upphafi hlaups og til að varna því að tíminn líði án þess að hlauparar komist af stað. Með þessu fyrirkomulagi verður nákvæmari tímasetning við ráslínuna og leiðin greiðfærari í byrjun á þröngum stíg í upphafi hlaups og á þjónustustöðum á leiðinni. Þetta getur líka orðið til þess að fyrsti þátttakandi í mark sé ekki sigurvegarinn. Það kemur ekki í ljós fyrr en 5-10 mínútum síðar.

Með þátttökunúmeri fylgja áfastir tveir farangursmiðar með sama númeri. Þeir eru ætlaðir til þess að rífa frá númerinu og merkja farangur. Sjá nánar um farangur hér.

Á númerinu eru fjórar aðrar afrifur sem tilheyra öryggisferli og tímatöku. Til þess að auðvelda starfsmönnum þjónustu við þátttakendur er nauðsynlegt að númerið sé fest að framan í mittishæð eða ofar. Fyrsta afrifa verður rifinn af númeri í Landmannalaugum, til þess að vita nákvæmlega hverjir fara af stað þaðan. Miðar merktir Emstrum og Álftavatn verða rifnir af þar til þess að geta fylgst með að allir skili sér örugglega alla leið. Ef miðinn losnar er æskilegt að næla hann fastan við númerið.

Neðst á númerinu má finna hæðakort af leiðinni þar sem einnig kemur fram hvar drykkjarstöðvarnar eru staðsettar.

Til þess að geta raðað sem best í ráshópa er mikilvægt að þátttakendur gefi upp fyrri tíma og reynslu í hlaupi ásamt áætluðum lokatíma. Upplýsingar um árangur í maraþoni og fyrri Laugavegshlaupum þarf að gefa upp þegar skráð er í hlaupið. Áætlaðan lokatíma þarf að skrá á mínum síðum en sú skráning hefst í lok júní og lýkur 1.júlí. Þar er líka hægt að óska eftir því að vera í ráshóp með ákveðnum hlaupafélögum en athugið að ósk um slíkt þarf að koma frá báðum aðilum. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected] með upplýsingum um reynslu sem gæti haft áhrif á röðun í ráshópa.

Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Laugavegshlaupið í júlí, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.