Umfang framkvæmdar

Kostnaður við framkvæmd Laugavegshlaups er umtalsverður og kostnaðarliðir eru margir.

Hlaupið hefur stækkaði á skömmum tíma úr 100 þátttakendum í 600 og útheimtir það umtalsverða aukningu í kostnaði. ÍBR reisir Tjaldborg í Húsadal þar sem aðstaða er fyrir alla þátttakendur til að skipta um föt, borða, hvíla sig og njóta samvista. Í Húsadal eru 40 starfsmenn á hlaupdegi, þar af 6 heilbrigðisstarfsmenn, sem þjónusta þátttakendur.

Flytja þarf klósettgáma í Hrauneyjar og í Landmannalaugar vegna álags þegar mörg hundruð manns þurfa að komast á salerni áður en lagt er af stað. Ákveðið leyfi er fengið frá Ferðafélagi Íslands og Umhverfisstofnun með því skilyrði að ekkert rusl sjáist á leiðinni.

Það liggur mikil vinna og kostnaður í flutningi og umsjón á farangri í Landmannalaugar, Bláfjallakvísl, Húsadal og til baka. Í Húsadal vinna starfsmenn hlaupsins frá fimmtudegi til sunnudags við undirbúning og síðan frágang. Meðal annars við að setja upp tjöld, sturtuaðstöðu, sjúkraþjónustu, mataraðstöðu, tímatöku og tölvubúnað og búningsaðstöðu. Það eru 50 starfsmenn á hlaupaleiðinni til þjónustu við hlaupara, þar á meðal björgunarsveitafólk með 5 fjallabíla. Það þarf að flytja vatn og mat á drykkjarstöðvar. Það er t.d. ekki hægt að gera ráð fyrir að nægt vatn sé í Hrafntinnuskeri fyrir þátttakendur og flytja hefur þurft vatn þangað. Flytja þarf starfsmenn á þjónustustöðvar og þátttakendur sem ekki ná tímamörkum eða slasast til byggða.

Ómæld vinna liggur einnig í óvissuþáttum með veður, ástand leiðarinnar, vatnsmagn í ám og hvernig þátttakendur eru undirbúnir. Það síðastnefnda á helst við um erlenda þátttakendur sem þekkja ekki  íslensk tilbrigði í veðri. Kostnaður er einnig við skrifstofuhald, skráningu, upplýsingagjöf, afhendingu hlaupagagna og aðra þjónustu sem veitt er.

Við erum þakklát styrktar- og samstarfsaðilum okkar sem koma til móts við hlaupið með ýmsum hætti. Starfsmenn hlaupsins koma frá Björgunarfélaginu Árborg á Selfossi, skokkhópnum Frískir Flóamenn á Selfossi, ÍBR og einnig eru einstaklingar sem eru tilbúnir ár eftir ár að vinna með okkur við að þjónusta hlaupara á háanna sumarfrístíma í stað þess að vera á fjöllum sjálfir með sínu fólki.

Það gefur auga leið að hlaupið verður að standa undir sér og mikilvægustu þættirnir í því eru tekjur af þátttökugjöldum og ráðdeild í rekstri varðandi kostnað.

Starfsmenn að aðstoða þátttakendur

Samstarfsaðilar

  • Reykjavik Excursions
  • 66 Norður
  • Suzuki
  • Volcano Huts
  • Ferðafélag Íslands
  • ITRA member
  • Gatorade