Veðurspá
10. júlí 2019

Samkvæmt spá Veðurvaktarinnar lítur út fyrir að það verði sólarlaust og lágskýjað yfir fjöllunum á Laugardaginn. Rigning með köflum á hlaupaleiðinni, en líklega þurrt í byrjun og aftur nærri Þórsmörk. Spáð golu af S og SA, strekkingur á hæstu stöðum. Von er á uppfærðri veðurspá frá Veðurvaktinni á föstudaginn.

Veðurspá fyrir Laugavegshlaupið 2019 gerð 10.júlí 2019

Veður á þessu svæði er síbreytilegt og því mikilvægt að allir hafi tiltækan þann klæðnað sem áður var búið að ráðleggja. Einnig er mikilvægt að hlauparar láti tösku með hlýjum fatnaði til að klæðast eftir hlaup í rútu hlaupsins í Landamannalaugum sem verður flutt inní Þórsmörk og þeir finna í farangurstjaldi á marksvæði. Sjá nánar um farangur hér.


Tilboð frá Garminbúðinni

Það er góð hugmynd að vera með GPS úr á sér þegar hlaupið er á fjöllum til að villast ekki af leið. Hér er hægt að ná í GPS feril til að setja í úr. Garminbúðin býður Laugavegshlaupurum sem vilja græja sig upp fyrir laugardaginn 15% afslátt af hlaupaúrum með kóðanum lauga19 á garminbudin.is eða með framvísun þessa pósts í búðinni þeirra í Ögurhvarfi 2. Afslátturinn gildir til 17.júlí og því líka hægt að verðlauna sig fyrir góðan árangur að hlaupi loknu.

Drykkjarstöðvar

Drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni eru í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn, á söndum við innri Emstruá, í Emstrum, við Ljósá og við Þröngá. Á drykkjarstöðvum eru starfsmenn sem geta aðstoðað við að fylla á drykkjarílát sem þátttakendur eru með á sér. Vegna umhverfissjónarmiða verða engin glös eða drykkjarílát á drykkjarstöðum og verða því allir þátttakendur að koma með sitt eigið. Hægt er að kaupa margnota brúsa frá Camelbak við afhendingu gagna í Laugardalshöll.

Rétt er að ítreka að þó að drykkjarstöðvar séu á leiðinni er nauðsynlegt að hver og einn hlaupari hafi meðferðis drykkjarbrúsa og orkugel eða aðra næringu. Til að losna við klístur og rusl sem fylgir gelbréfum er ráðlagt að setja innihald gelbréfanna í brúsa. Það hefur reynst hlaupurum vel að fá sér einn og einn sopa af geli alla leiðina. Auk þess hefur reynst vel að hafa meðferðis salttöflur eða eina teskeið af salti í plastpoka sem hægt er að fá sér nokkur korn af og skola niður með vatni.

Óheimilt er með öllu að kasta rusli frá sér á leiðinni. Hlauparar eru vinsamlega beðnir að leggja sitt af mörkum við að skilja við hlaupaleiðina eins og enginn hafi farið þar um. Hver og einn þarf að passa uppá að missa ekki frá sér sín gelbréf og drykkjarmál og aðrar umbúðir utan af mat, plástrum o.fl. Hægt er að losa sig við rusl á drykkjarstöðvum og á marksvæðinu í Þórsmörk.

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Laugavegshlaupið í júlí, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.