Uppfærð veðurspá
13. júlí 2018

Veðurvaktin hefur sent okkur uppfærða veðurspá fyrir hlaupaleiðina á morgun. Spáin í dag er aðeins betri en sú sem við sendum á miðvikudaginn, von á sólarglennum í Emstrum og Húsadal og hægari vind á því svæði sem við gleðjumst mikið yfir. Áfram er spáð þoku, rigningu og roki í Hrafntinnuskeri. Þar þarf því að fylgjast vel með appelsínugulu flöggunum sem búið er að setja í snjóinn til að fara ekki af leið. Smellið á myndina til að skoða spána nánar.

Staðan á hlaupaleiðinni

Staðan á hlaupaleiðinni er góð samkvæmt skálavörðum og göngufólki á svæðinu. Snjórinn við Hrafntinnusker hefur aðeins hopað en er þó enn í 2-3 km radíus þar í kring. Það sem hefur helst truflað göngufólk er snjókrapi og þurfa hlauparar gera ráð fyrir að fara yfir slíkt undirlag á einhverjum tímapunkti, líklega í útjaðri snjólínunnar.

Rútuferðir

Minnum á að rútur hlaupsins fara frá Skautahöllinni í Laugardal kl. 4:30 í fyrramálið. Þau sem pöntuðu sæti í rútunni frá Selfossi þurfa að mæta kl.5:00 á N1 bensínstöðina á Selfossi. Þeir sem koma í rútuna í Hrauneyjum þurfa að vera tilbúnir kl.7:00.  Mikilvægt er að mæta tímanlega því rútan bíður ekki eftir neinum. Það verður hægt að komast á klósett í Skautahöllinni í Laugardal fyrir brottför eða frá kl.4:15-4:25 en næsti möguleiki eftir það er ekki fyrr en í Hrauneyjum um tveimur tímum síðar.

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Laugavegshlaupið í júlí, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.