Nauðsynilegur búnaður
6. júlí 2018

Helstu fregnir af Laugaveginum eru þær að þéttur snjór er nú samfelldur í um 3-4 km radíus í kringum Hrafntinnusker. Öll gil þar í kring eru full af snjó og merkingar einnig undir snjó en hlaupaleiðin verður sérstaklega merkt með appelsínugulum flöggum þannig að allir rati rétta leið. Vegna þessara aðstæðna og því að íslenskt veðurfar er ansi óútreiknanlegt biðjum við ykkur að undirbúa ykkur vel og hafa tiltækan vetrarhlaupaklæðnað.

Nauðsynlegur búnaður

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvaða búnað allir hlauparar ættu að hafa tiltækan á hlaupdag. Langerma bolur og síðar buxur, jakki, vettlingar og höfuðbúnaður sem hylur bæði höfuð og eyru er nauðsynlegur lágmarksbúnaður. Þá eru grófbotna skór og sokkar sem þola að blotna alltaf besti kosturinn. Reynslan hefur sýnt að hlaupurum þykir gott að nota lágar skóhlífar til að varna því að snjór og smásteinar fari ofan í skóna (sjá dæmi um slíka hlíf hér).

Taska í Bláfjallakvísl

Athugið að farangur sem flytja á að Bláfjallakvísl þarf að berast í Laugardalshöll fyrir kl. 17:00 föstudaginn 13.júlí (sjá opnunartíma afhendingar gagna hér). Ekki er tekið á móti farangri í plastpokum, eingöngu litlum töskum og er þyngd að hámarki 3 kg og stærð ca 20cm x 35 cm. Sjá nánar hér.

Upplýsingarit

Allir hlauparar eru vinsamlega beðnir að lesa upplýsingarit hlaupsins sem má finna hér. Þar er yfirlit yfir allt skipulag sem mikilvægt er að þátttakendur þekki vel.

Á miðvikudag fá hlauparar ítarlega veðurspá fyrir hlaupaleiðina og einnig er von á fleiri póstum til að minna á mikilvæg atriði dagana fram að hlaupi. Hvetjum því skráða þátttakendur til að fylgjast vel með tölvupóstinum sínum en allir upplýsingapóstar eru sendir frá netfanginu [email protected].

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Laugavegshlaupið í júlí, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.